Ferlið hjá Táralind er þrískipt. Fyrst er athugað hvort augnþurrkur er til staðar, síðan hversu alvarlegur þurrkurinn er, og að lokum er undirliggjandi orsök fundin. Þar sem augnþurrkur er margþættur sjúkdómur eru nákvæm próf gerð til að fá rétta greiningu.
Táralind notast við staðlaða spurningalista, hefðbundnar prófanir og tæknilega þróaðar rannsóknir við greiningu, í samræmi við alþjóðlegar leiðbeiningar TFOS (Tear Film and Ocular Surface Society) .
Spurningalistar
Táralind notar staðlaða spurningalista í greiningarferlinu. Listarnir kallast Ocular Surface Disease Index (OSDI) og McMonnies Questionnaire.
Hefðbundnar prófanir
Við notum hefðbundnar prófanir til að meta þurrk í augum, skerta táraframleiðslu og aukna uppgufun í tárafilmu. Til dæmis er blikkstarfsemi augans, sem og magn táravökvans og næmni hornhimnunnar, mæld. Einnig eru gerðar prófanir til að mæla uppgufun tára (tear break-up time) og táraframleiðslu. Hornhimnan er lituð með sérstökum litarefnum sem sýna hugsanlega þurrkubletti á yfirborði hennar og fitukirtlar augnlokanna eru skoðaðir.